Suður-Kóreuvandi

Punktar

Steven R. Weisman skrifar í dag grein í New York Times um byltinguna, í samskiptum Bandaríkjanna og Suður-Kóreu. Hún náði hámarki við kjör mannréttindalögmannsins Roh Moo Hyun sem forseta Suður-Kóreu. Fyrir og eftir kjörið hafa verið mótmæli og óeirðir í landinu gegn Bandaríkjunum, 37.000 manna hersetu þeirra í Suður-Kóreu og stefnu þeirra gagnvart Norður-Kóreu, sem hinn nýi forseti segir, að komi ekki að gagni. Bandaríkin eru nú að súpa seyðið af stuðningi við einræðisherra og herforingja fyrri tíma, sem lengi stóðu í vegi fyrir lýðræði í Suður-Kóreu. Til langt tíma litið er dýrkeypt að styðja óvinsælar herforingjastjórnir gegn almenningi, svo sem nú má sjá í Pakistan, þar sem almennir borgarar hata Bandaríkin meira en nokkru sinni fyrr og skjóta skjólshúsi yfir hryðjuverkamenn.