Bretar keppa við Kára

Punktar

Brezka stjórnin hyggst hefja samkeppni við deCode og Kára Stefánsson með gagnabanka brezkra gena. Öfugt við Kára ætla Bretar ekki að byggja á misnotkun sjúkraskýrslna, heldur blóðsýnum sjálfboðaliða, alls hálfrar milljónar manna á 5-6 árum. Bretar telja það kost, að þjóðin sé fjölbreytt, en ekki einhæf eins og Íslendingar. Gwen Kinkead skrifar um þetta í New York Times í gær. Hún segir, að Bretar hyggist læra af erfiðleikum Kára á Íslandi og gæta þess, að brezki gagnabankinn leiði ekki til ólgu og andstöðu í þjóðfélaginu. Markmið gagnabankans er að finna, að hve miklu leyti flestir algengir sjúkdómar stafa af erfðum og að hve miklu leyti af öðrum þáttum á borð við reykingar, áfengi, veirur, mengun, hreyfingarleysi og rangt mataræði. Til að ná slíkum árangri þurfi fjölbreytt blóðsýni, sem fáist ekki á einhæfu Íslandi.