Framleidd ímyndunarveiki

Punktar

British Medical Journal kastaði sprengju á lyfjaiðnaðinn á föstudaginn með grein, þar sem er fullyrt, að læknar tengdir lyfjafyrirtækjum hafi framleitt ímyndaðan sjúkdóm kynkulda kvenna til þess að selja meira af lyfinu Viagra. Í greininni eru raktar ráðstefnur á kostnað lyfjaiðnaðarins síðan 1997, þar sem fyrirlesarar með fjárhagsleg tengsl við lyfjafyrirtæki hafa reynt að sjúkdómavæða kynkulda kvenna. Árið 1999 tókst læknum með fjárhagsleg tengsl við Pfizer-lyfjarisann að koma grein í Journal of the American Medical Association um að 43% kvenna væru haldin þessum ímyndaða sjúkdómi. Í grein British Medical Journal er sagt, að kynkuldi kvenna sé ekki líkamlegur sjúkdómur, heldur andlegt ástand, sem felist í þreytu, streitu eða andúð. Barry James fjallar um þetta mál í International Herald Tribune í dag og birtir viðtöl við ýmsa fræðimenn.