Aflinn er ekki kominn á land

Punktar

Í kosningabaráttunni mun Samfylkingin neyðast til að verja tíma og orku í að útskýra stuðning sinn við Kárahnjúkavirkjun. Vinstri grænir þurfa bara að endurtaka: Þið stóðuð með ríkisstjórninni, þegar á reyndi. Þess vegna meðal annars mun Samfylkingin ekki bera allt það fylgi á land, sem skoðanakannanir segja um þessar mundir, að sé á fiskimiðum hennar. Hvað varðar fylgi, er það kostur og galli miðflokka að hafa væg og dauf sjónarmið, sem menn festa ekki hendur á. Það er kostur, þegar kjósandi lætur atkvæði sitt ráðast af leiða á gamalli ríkisstjórn, en ekki af ágreiningi við hana. En það er galli, þegar kjósandi lætur stjórnast af innri sannfæringu. Slík sjónarmið munu togast á í kosningunum og trufla sumar torfur kjósenda á miðum Samfylkingarinnar.