Ríkið hefur lengi reynt að spara peninga með því að láta fólk taka þátt í sínum eigin lyfjakostnaði. Á sínum tíma var þetta einnig rökstutt með því, að óþörf og lítt þörf lyfjanotkun mundi minnka. Gagnrýnendur segja hins vegar raunina vera þá, að hinir fátæku neiti sér um brýnustu lyf, af því að þeir eigi enga peninga. Sama gildir um ýmsa aðra þjónustu ríkisins á sviðum heilbrigðis- og menntamála. Spurningin er, hvort þjónusta ríkisins muni smám saman nýtast þeim, sem hafa efni á að borga mótframlagið, en ekki öðrum. Þar með væri verið að magna stéttaskiptingu í þjóðfélaginu. Ríkisvaldið er að innleiða stefnu kostnaðarhlutdeildar án þess að vita, hvort það sé að vernda velferð hinna betur settu á kostnað hinna, sem minnst mega sín.