Listfræðingurinn Rab Hatfield í Flórens hefur rannsakað bankagögn um fjármál eins mesta listamanns veraldarsögunnar, Michelangelo, sem var uppi á sextándu öld og var sífellt að kvarta yfir fátækt sinni. Í rauninni átti hann sem svarar milljörðum íslenzkra króna á verðlagi nútímans, en tímdi ekki að nota peningana. Hann varð snemma mjög ríkur, var um tíma á 60 milljón króna árslaunum hjá Klemens páfa VII og fékk samtals einn milljarð króna fyrir legstein Júlíusar páfa II, sem hann raunar kláraði aldrei. Hatfield hefur gefið niðurstöðurnar út í nýrri bók: “The Wealth of Michelangelo”. Frá þessu var sagt í International Herald Tribune í morgun.