Fjármálaráðherrar Evrópusambandsríkja hafa einróma samþykkt að afnema bankaleynd í Evrópu í áföngum og skiptast á upplýsingum, sem leiði til, að menn borgi í heimalandi sínu skatt af landflótta peningum sínum. Þótt margir efist um, að þetta takist, má sjá, hver stefnan er. Í næstu viku er reiknað með, að Efnahags- og þróunarstofnunin komist á fundi í París að samkomulagi um, að bankaleynd skuli víkja fyrir gegnsæi. Samkvæmt frétt í New York Times í gær eru þetta tvö skýr dæmi um þróun frá þeirri kenningu, að fjármál manna og fyrirtækja séu einkamál þeirra, til þeirrar kenningar, að fjármál eigi að vera gegnsæ. Þetta bendir til, að þrengdur aðgangur að álagningarskrám skatta á Íslandi stefni í öfuga átt við lýðræðislega þróun mála á Vesturlöndum.