Þrátt fyrir fyrri fullyrðingar sínar hafa ráðamenn Bandaríkjanna ekki reynzt búa yfir neinum leyniskjölum, sem geti komið eftirlitsmönnum Sameinuðu þjóðanna á sporið í Írak. Nú segja ráðamenn Bandaríkjanna engu máli skipta, þótt eftirlitsmennirnir finni ekkert. Ef Saddam Hussein afhendi ekki vopnin, sem ráðamenn Bandaríkjanna fullyrða, að hann hafi, sé hann í rauninni brotlegur. Steven R. Weisman segir þetta í New York Times. Sú röksemdafærsla yrði ekki tekin gild fyrir neinum dómstóli á Vesturlöndum. Hvað á Saddam að afhenda, ef hann hefur það ekki? Öryggisráðið kaupir ekki röksemdina og Atlantshafsbandalagið ekki heldur. Í fyrirhuguðu stríði um olíulindir munu Bandaríkin síðan óhjákvæmilega planta sönnunargögnum til að réttlæta árásina eftir á.