Svarta listann vantar

Punktar

Ef fyrirhugaðri árás Bandaríkjanna á Írak er ætlað að losa íbúana við grimman harðstjóra og koma þar upp lýðræði að vestrænni fyrirmynd, eins og Thomas L. Friedman segir í International Herald Tribune, þá þyrfti árásin að vera liður í fjölþjóðlegri og markvissri stefnu. Sú stefna gæti til dæmis orðið til á þann hátt, að Atlantshafsbandalagið, í umboði Vesturlanda, raðaði helztu harðstjórum heimsins á svartan lista, þar sem röðin væri byggð á viðurkenndum skilgreiningum. Síðan gætu Vesturlönd byrjað á að hrekja með hótunum og hervaldi þann efsta frá völdum og fara svo niður svarta listann. Engan veginn er víst, að Saddam Hussein yrði efstur á slíkum lista, því að hann hefur skánað mikið síðan hann var skjólstæðingur Bandaríkjanna og framdi sín verstu fólskuverk með þeirra vitund og vilja.