Skíðasvæði nútímans eru hönnuð frá A til Ö. Við stígum á skíðin fyrir utan dyr skíðageymslunnar á hótelinu og rennum okkur niður í næstu lyftu. Þegar við erum komin úr 1300 metra í 2400 metra hæð, látum við getu okkar velja um brekkur til að renna okkur niður. Ef við viljum skipta um skíðasvæði, rennum við okkur um brýr og göng til að komast milli fjögurra aðskilinna svæða, einnig til tveggja annarra nálægra skíðabæja. Á hverjum morgni eru öll svæði tilbúin til að taka við fólki. Ef snjóinn vantar, er flestum brekkum haldið opnum með 700 snjóbyssum, sem eru í gangi á nóttunni. Rafmagnsreikningur skíðabyssanna hefur farið í einn milljarð íslenzkra króna á snjólausum vetri árið 2002. Þetta er Íslendingastaðurinn Madonna á Ítalíu, einn af ótal sérhæfðum skíðastöðum í heiminum, sem varla missa úr dag vegna veðurs. Það er og verður erfitt fyrir Bláfjöll og Hlíðarfjall að keppa við þrautskipulagðar verksmiðjur skíðaferðaþjónustunnar.