Í grein í Guardian staðsetur Todd Gitlin Evrópuhatur Bandaríkjamanna og Bandaríkjastjórnar. Það ríkir í sólarbeltinu, það er að segja í gömlu Suðurríkjunum, Klettafjallaríkjunum og Sléttunum miklu. Þungamiðjan er í Texas, heimaríki Bandaríkjaforseta, og olía er grunniðnaðurinn. Mikill hluti kjósenda sólarbeltisins fyrirlítur höfuðborgina Washington og telur Evrópu byrja í New York. Þeim líkar vel við forseta, sem aldrei hefur sýnt neinn minnsta áhuga á umheimi Bandaríkjanna og hafði næstum aldrei farið út fyrir landsteinana, þegar hann varð forseti. Sólarbeltið styður einangrunarstefnu og einræðisstefnu forsetans, sem er eins konar holdgervingur kúrekans The Lone Ranger. Sólarbeltið hafnar fjölþjóðasáttmálum og fjölþjóðasamvinnu sem evrópsku væli. Það telur, að umheimurinn geti bara étið það, sem úti frýs.