Ríkisstjórnir Frakklands og Þýzkalands styðja ekki fyrirhugað stríð Bandaríkjanna við Írak, ekki heldur ríkisstjórnir Svíþjóðar og Finnalands, ekki Hollands og Belgíu, ekki heldur Írlands og Lúxemborgar. Hins vegar er stríðið stutt af ríkisstjórnum Bretlands og Spánar, Portúgals og Ítalíu, svo og Danmerkur, þótt almenningsálit allra þessara landa sé jafn eindregið andvígt stríðinu og almenningsálit fyrrnefndu landanna. Stuðningurinn við stríðið er meiri í Austur-Evrópu, þar sem tíu ríkisstjórnir hafa lýst yfir stuðningi við stríðið, að vísu án stuðnings almenningsálitsins í löndum þeirra. Allar þessar yfirlýsingar voru á vettvangi fyrir ræðu Colin Powell í öryggisráðinu í gær og leiða ekki til meirihluta í ráðinu með fyrirhuguðu stríði.