Í ræðunni í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna fyrr í vikunni hrósaði Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, nýútkominni brezkri ríkisstjórnarskýrslu um vonzku Saddam Hussein Íraksforseta og sagði skýrsluna mjög vandaða. Brezka ríkisstjórnin hafði logið því að brezka þinginu, að skýrslan fæli í sér nýjustu upplýsingar frá brezku leyniþjónustunni. Fréttastofa Channel 4 í Bretlandi upplýsti hins vegar, að skýrslan var að mestu leyti stæld og stolin upp úr gamalli ritgerð eftir Ibrahim al-Marashi, fræðimann í Monterey í Kaliforníu, og hafði ekkert nýtt að geyma. Margt var orðrétt upp úr ritgerðinni, meira að segja prentvillurnar. Lesið um þetta í fréttum Associated Press.