Hundalógík í hávegum 1

Punktar

Ein hundalógíkin, sem valdamenn Bandaríkjanna hafa látið sér sæma að undanförnu, er þessi: Ef vopnaleitarmenn Sameinuðu þjóðanna finna ekki ólögleg vopn í Írak, þarf að fara í stríð við Írak, af því að Saddam Hussein hafi tekizt að fela ólöglegu vopnin. Ef vopnaleitarmennirnir finna hins vegar ólögleg vopn í Írak og eyða þeim, þarf að fara í stríð við Írak, af því að Saddam Hussein taldi þessi vopn ekki fram í skýrslu sinni til vopnaleitarmanna. Því verður farið í stríð, hver sem verður niðurstaða vopnaleitarinnar. Rökfræði Bandaríkjastjórnar gerir ekki ráð fyrir þeim tveimur eðlilegu niðurstöðum, að annað hvort hafi engin ólögleg vopn verið í Írak eða að vopnaleitarmenn hafi komið höndum yfir þessi ólöglegu vopn og gert þau óskaðleg. Báðar niðurstöðurnar mundu þó gera stríðið óþarft.