Enn einu sinni hefur verið skrifað um “hið sanna ástand heimsins”. Nýjasti höfundurinn er ekki aldeilis sammála Lomborg hinum danska og Fiskifélagi Íslands, sem telja ástand náttúrunnar miklu betra en heimsendaspámenn grænfriðunga og annarra slíkra hafi fullyrt. Þvert á móti segir nýjasti spámaðurinn, að ástandið sé í rauninni miklu verra og að það sé alls ekki umdeilanleg skoðun. Það er sjálfur umhverfisráðherra Bretlands, Michael Meacher, sem segir þetta í grein í Guardian. Hann bendir á, að stórflóð, sem áður komu einu sinni á tuttugu ára fresti, komi nú átján sinnum á tuttugu ára fresti. Hann bendir á, að slík flóð hafi skaðað sjö milljón manna á ári fyrir fjórum áratugum en skaði nú 150 milljón manna á ári. Hann bendir á, að ofsarok hafi skaðað þrjár milljónir manna á ári fyrir þremur áratugum en skaði nú 25 milljón manna á ári. Greinin heitir: Heimsendir er í nánd, það er orðið opinbert.