Höfuðborg Austur-Evrópu

Punktar

Bruce Jackson er bandarískur baráttumaður á hægri kanti stjórnmálanna, áhugamaður um árás á Írak og sérfræðingur í pólitískum þrýstingi. Hann er einnig ráðgjafi sendiráða flestra ríkja Austur-Evrópu í Washington og auðveldar þeim aðgang að bandarískum ráðamönnum. Thomas Fuller skrifar um hann í International Herald Tribune í dag og hefur eftir nafngreindum sendiráðsmönnum, að Jackson hafi samið uppkastið að stuðningsyfirlýsingu ríkja Austur-Evrópu við stefnu Bandaríkjanna í Íraksmálinu. Endanleg útgáfa er að hluta orðrétt frá honum. Sendiherrar þessara ríkja seldu ríkisstjórnum sínum hugmyndina og endanlegum texta var dreift til fjölmiðla frá skrifstofu Jackson. Almenningur í Austur-Evrópu er andvígur fyrirhuguðu stríði, en ríkisstjórnirnar vilja tryggja, að bandaríska þingið samþykki aðild þeirra að Atlantshafsbandalaginu. Í greininni vekur Fuller athygli á, að samstarf Austur-Evrópuríkja sín á milli fer fram í Washington, en ekki í Bruxelles, pólitískri höfuðborg Evrópusambandsins.