Franski rithöfundurinn Régis Debray skrifaði í gær örstutta og ágæta grein í New York Times, þar sem hann ber saman Íraksstefnu Bandaríkjanna annars vegar og Frakklands og Þýzkalands hins vegar. Hann bendir á, að stuðningsstjórnir Bandaríkjanna í Evrópu njóti ekki stuðnings almennings í þessu máli. Hann bendir á, að heimsveldi geti ekki til lengdar farið með bandamenn sína eins og leppa eða lénsmenn. Hann bendir á, að Evrópa hafi lært af biturri reynslu sinna gömlu heimsveldisóra, hafi lagt niður hrokann og sé farin að viðurkenna, að sín menning sé ekki ein í heiminum. Aðrir menningarheimar, til dæmis Íslam, geti haft eitthvað til síns máls. Bandaríkin séu hins vegar haldin hrokafullu trúarofstæki og taumlausri trú á eigin ágæti. Þau séu ófær um að skilja, að ekki sé alltaf víst, að þau ein hafi rétt fyrir sér. Þess vegna séu Bandaríkin að glata forustu hins vestræna heims.