Heimsveldis- og stríðsþrá

Punktar

Dálkahöfundurinn Jonathan Freedland segir í Guardian, að hinir stríðsglöðu ráðgjafar Bandaríkjaforseta, Dick Cheney, Donald Rumsfeld, Paul Wolfowitz, Richard Perle og Jeb Bush forsetabróðir, séu stofnendur Áætlunar um nýja Bandaríkjaöld, sem hefur verið til húsa við 17da stræti í Washington síðan 1997. Þetta er eins konar hugmyndabanki, þar sem fjallað er um, hvernig Bandaríkin geti náð heimsyfirráðum á öllum sviðum á þessari öld. Stefnt er að heimi, þar sem sambúð ríkja við Bandaríkin sé þeim mikilvægari en sambúðin við öll önnur ríki. Enginn afkimi hnattarins verði utan valdsviðs Bandaríkjanna. Settar verði upp herstöðvar um allan heim, Kína verði umlukt bandarískum herstöðvum og lokamarkmiðið verði hernaðarlegur sigur á Kína. Búast má við ótryggum heimi meðan þessi stefna er við völd, því að heimurinn mun tregðast við að lúta Bandaríkjunum.