Fjórðungi bregður til fósturs, segir forspátt spakmæli, sem hæfir umræðu nútímans um hina ýmsu þætti, sem móta manninn. Ekki er fráleitt að ætla, að fjórðungur af okkur felist í erfðum, fjórðungur í fóstrun, fjórðungur í umhverfi og fjórðungur í persónu okkar. Þannig nær erfðasjúkdómur oft ekki fram að ganga, af því að hinir þrír þættirnir vinna á móti honum. Það gildir jafnt um hjartamein, krabbamein og drykkjumein, útbreiddustu sjúkdóma nútímans. Með hjálp góðrar fóstrunar og góðs umhverfis geta menn orðið sinnar eigin gæfu smiðir, eins og segir í öðru góðu spakmæli. Vegna framgangs erfðavísinda er um þessar mundir mikið skrifað í erlend blöð um tengsli erfða við aðra þætti, sem móta manninn. Ein greinin, eftir Natalie Angier, birtist í New York Times í gær.