Evrópa er að læra

Punktar

Evrópa hefur lært mikið um stöðu sína í heiminum á síðustu mánuðum. Bandaríkjastjórn hefur beitt gamalkunnum aðferðum Rómarveldis, deilt og drottnað. Hún hefur verið Evrópu fjandsamleg, sigað ríkisstjórnum álfunnar hverri gegn annarri og sýnt fram á, að Evrópa hefur enga utanálfustefnu og litla hernaðarstefnu. Á sama tíma hefur fjármálastefna Evrópu styrkzt með sameiginlegum seðlabanka og sameiginlegri mynt, sem sífellt hækkar í verði gagnvart dollar. Skýringin á misþróun Evrópu er að verða mönnum ljós. Evrópusambandið er of ungt til að láta að sér kveða í umheiminum, til dæmis í miðausturlöndum, en getur tryggt innri velsæld og innra öryggi. Atlantshafsbandalagið er að liðast sundur, enda orðið óþarft. Evrópusambandið er að byrja að tryggja frið á Balkanskaga. Senn munu kjarnaríki Evrópu svara margvíslegri ögrun Bandaríkjanna með því að fresta því að taka inn önnur ríki Austur-Evrópu en þau, sem hallast fremur að evrópskum en bandarískum viðhorfum til lífsins og tilverunnar.