Einungis tvö ríki, Bretland og Ástralía, taka í verki þátt í árás Bandaríkjanna á Írak, hvort tveggja gegn eindregnum vilja kjósenda. Misheppnuð tilraun Bandaríkjanna til að fá stuðning öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sýndi, að einkum var beitt mútum og hótunum til að fá ríki til fylgis við innrásina. Tyrkir áttu að fá 26 milljarða dollara fyrir að taka við bandarískum landher, en neituðu samt í atkvæðagreiðslu á þjóðþinginu. Þau ríki, sem lýst hafa aðgerðalausum stuðningi við stríðið, gera það ekki af fúsum og frjálsum vilja. Þeim var mútað og þeim var hótað. Kjósendur voru ekki spurðir. Innan um kúguðu mútuþeganna eru svo tveir bjánar frá Íslandi, forsætis- og utanríkisráðherra okkar, sem ekki hirtu um að fá samþykki þingsins eins og lýðræðissinnaðri starfsbræður þeirra í Tyrklandi reyndu þó. Bandalagið gegn Írak er ekki bandalag viljugra, heldur bandalag kúgaðra og mútaðra með tvíeyki frá Íslandi í eftirdragi.