Uppvísir að lygaflaumi

Punktar

BBC hefur opinberlega játað að hafa birt rangar fréttir frá Írak undir áhrifum innrásarliðsins. David Fox, fréttaritari Reuters, komst inn í Basra og komst að raun um, að þar hafði engin tilraun verið gerð til uppreisnar gegn Íraksher. Fjölmiðlar höfðu verið fullir af þeirri lygi brezka hersins, þar á meðal íslenzkir. Mark Damazer hjá BBC viðurkenndi líka, að fréttastofan hefði níu sinnum á fjórum dögum ranglega talið innrásarherinn hafa náð Umm Kasr á sitt vald. Ennfremur, að ekki væri fótur fyrir, að 51. deild Írakshers hafi gefizt upp. Hvort tveggja voru fullyrðingar innrásarliðsins. Faisal Bodi, fréttaritari Al-Jazeera, ræðir þessi mál í Guardian og segir, að hefðbundnir fjölmiðlar á Vesturlöndum hafi meira eða minna bergmálað þá óra Bush og Blair, að Írakar taki innrásarliðinu opnum örmum. Í sama Guardian segir Faisal al Yafi, að meðal almennings í Bretlandi sé að magnast vantraust á því, sem fólk sér og les um stríðið í þarlendum fjölmiðlum. Fólk telji hrylling innrásarinnar réttilega vera margfelt verri en þann, sem það fær skammtaðan á skjáinn.