Fyrst þurftu Írakar að þola morð og limlestingar af hálfu stjórnar Saddam Hussein. Næst þurftu Írakar að þola morð og limlestingar af hálfu herja George W. Bush og Tony Blair, sem leiddu til stjórnleysis í landinu, svo að nú síðast þurfa Írakar að þola rán og gripdeildir glæpamanna ofan á fyrri hörmungar. Segja má þó, að ástandið hafi skánað. Saddam myrti tugþúsundir, Bush og Blair myrtu þúsundir og ræningjarnir myrða hundruð þessa dagana. Langt kann þó að vera í friðsamt líf hjá Írökum, því reynslan frá Afganistan sýnir, að Bush er sýnna um að koma á stríði en að koma á friði. Hann gerði til dæmis ekki ráð fyrir neinum kostnaði á fjárlögum þessa ári við friðargæzlu í Afganistan, þar sem löggæzlumenn fá ekki lengur borgað og þar sem nú ríkir óöld herstjóra og trúarofstækismanna eins og fyrir stríð. Ágæt grein um þetta efni eftir Paul Krugman birtist í New York Times í morgun.