Spennan milli Bandaríkjanna og kjarnaríkja Evrópusambandsins var augljós á fundum Alþjóðabankans og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins um helgina. Svo lítið er traustið milli herbúða, að Seðlabanki Evrópu gerði sérstakar ráðstafanir á föstudaginn til að verjast bandarískri árás á evruna. Þýzkaland neitaði að taka þátt í fjármögnun Íraksdeilunnar. James Wolfensohn, bankastjóri Alþjóðabankans, neitaði að senda nefnd til Íraks til að kynna sér stöðu mála, nema Frakkland og Þýzkaland samþykktu ferðina. Þessi ríki og raunar Bretland líka vilja ekki senda nefnd til Bagdað, nema öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fjalli um málið. Á föstudagskvöldið samþykktu efnahagsveldin sjö að mæla með afgreiðslu í öryggisráðinu og sendinefnd til Bagdað, svo að úr þeirri flækju kann að greiðast. En ýmis önnur atriði valda deilum í bönkunum tveimur, þar á meðal hinn gífurlegi taprekstur, sem orðinn er á bandaríska ríkissjóðnum, síðan Bill Clinton fór frá völdum og George W. Bush tók við. Um ýmis þessi atriði er fjallað í grein eftir Larry Elliott í Guardian.