Hernám veikir Nató

Punktar

Í valdahópum Vesturlanda er verið að viðra þá hugmynd, að Atlantshafsbandalagið taki þátt í hernámi Íraks í kjölfar aðildar þess að hernámi Afganistans næsta sumar. Menn vænta þess, að tilefnislaust stríð Bandaríkjanna og Bretlands gegn Írak fái skárri alþjóðastimpil með aðild bandalagsins og að auðveldara verði að fá Evrópu til að fjármagna hernámið, ef það er á vegum bandalagsins. Þetta er sjálfsagt allt satt og rétt hjá Philip H. Gordon í International Herald Tribune. Óviljandi aukaverkunin verður þó enn betri: Óvinsælt hernám Atlantshafsbandalagsins í fjarlægum löndum mun grafa undan trausti almennings í Evrópu á bandalagi, sem þegar er talið vera handbendi Bandaríkjanna og er andsnúið sértækum öryggishagsmunum Evrópu. Almenningur í Evrópu mun vafalítið telja nærtækara, að Bandaríkin borgi brúsann.