Colum Lynch segir í Washington Post, að George W. Bush Bandaríkjaforseti leggi vaxandi þunga á tilraunir til að kúga Sameinuðu þjóðirnar til að ræða ekki ýmis mál, sem geti leitt til umræðu um stöðu mála í Afganistan og Írak. Tilraunirnar fela meðal annars í sér persónulegar árásir á Kofi Annan, framkvæmdastjóra samtakanna, og Jan Kavan, forseta allsherjarþingsins. Bush vill til dæmis ekki, að rætt verði um mannréttindabrot í Afganistan síðasta aldarfjórðunginn, því að þá muni koma í ljós, að bandaríska hernámsliðið í Afganistan styðjist við þarlenda herstjóra, sem séu sekir um gróf mannréttindabrot. Talið er, að Bush muni takast að kúga Sameinuðu þjóðirnar til hlýðni að þessu leyti.