Reiknað hefur verið út, að auglýsingar stjórnmálaflokka í dagblöðum og sjónvarpi voru samtals komnar í 70 milljónir króna um síðustu mánaðamót. Eru þá ótalinn annar áróður, svo sem bæklingar, tímarit, borðar og fleira. Ennfremur er ótalinn kostnaður að baki auglýsinganna, sem er ekki minni en króna á móti krónu, sumir segja tvær krónur á móti krónu. Eftir fylgishlutföllum flokkanna má gera ráð fyrir, að barátta Framsóknarflokksins fari að lokum hátt yfir 100 milljónir króna og barátta Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins nálgist 100 milljónir króna hjá hvorum. Sumt af þessu fæst af ríkisstyrk og hjá sannfærðum flokksmönnum, hvort tveggja misjafnt eftir stærð flokka. Afganginn borga hagsmunaaðilar, sem vilja fá eitthvað fyrir snúð sinn. Spillingarfé Framsóknarflokksins að þessu sinni verður af stærðargráðunni 100 milljónir, sem er nýtt Íslandsmet, Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins af stærðargráðunni 50 milljónir hjá hvorum flokki. Hagsmunagæzlufé þessara alþingiskosninga mun þá nema samtals 200 milljónum króna.