Russell Smith skrifar í The New York Review of Books og kallar stríðsfréttir bandarískra sjónvarpsstöðva “viðbjóðslega” þjóðernissinnaðar. Bandarískir sjónvarpsfréttamenn hafi látið stjórnvöld hafa sig að fífli. Michael Massing segir í sama blaði, að þeir hafi verið hraðritarar hjá hernum, ekki fréttamenn. Michael Hirsh hjá Newsweek segir í fyrirlestri í Yale, að bandarískar sjónvarpsfréttir af stríðinu við Írak hafi verið “viðurstyggilegar”. Af samanburði á fréttaflutningi bandarískra sjónvarpsstöðva annars vegar og kanadískra og brezkra hins vegar mætti halda, að um tvö gerólík stríð hafi verið að ræða. Danny Schechter skrifar í Japan Today um þessa gagnrýni og ýmsa aðra. Hann telur, að hún verði á endanum talin vera réttmæt og blaðamannastéttin muni þá blygðast sín fyrir bandaríska sjónvarpsfréttamenn.