Martin Woollacott segir í Guardian, að stríðið við Írak muni leiða til vinslita milli stjórnvalda í Bandaríkjunum og Sádi-Arabíu. Hryðjuverkin gegn útlendingum í Sádi-Arabíu muni ekki leiða til harðari aðgerða þarlendra stjórnvalda gegn ofsatrúarmönnum, heldur muni þau reyna að bæta sambúðina við þá, fremur en sambúðina við Bandaríkin. Hann telur, að Sádi-ættin viti, að ógnin við ættina sé innanlands og að óformleg uppreisn ofsatrúarmanna sé þegar hafin. Sádar muni fremur reyna að ná sáttum við þjóðina, heldur en að verða við bandarískum kröfum um breytta stjórnarhætti. Raunar telji Sádar, að það muni styrkja sig í sessi að fjarlægjast Bandaríkin.