Bandaríkin borga ekki

Punktar

Peter Beaumont segir í Observer, að Bandaríkjastjórn hafi ákveðið að fresta um óákveðinn tíma að afhenda völdin í Írak í hendur andstæðinga Saddam Hussein, meðal annars vegna kröfu sjíta um stjórn á trúarlegum grunni. Bandaríkjastjórn hafi einnig ákveðið að stjórna olíulindunum og láta Írak sjálft borga með olíupeningum fyrir tjónið, sem innrásarliðið olli landinu. Að svo miklu leyti sem það fé dugi ekki, vilji Bandaríkjastjórn að einhver önnur ríki borgi, til dæmis Frakkland og Þýzkaland, sem voru andvíg stríðinu. Samkvæmt útreikningi spænsku ríkisstjórnarinnar, sem stendur að hernámi Breta og Bandaríkjamanna, mun endurreisn Íraks úr rústum hernámsins kosta um 80 milljarða dollara, en þar af ætla Bandaríkin sjálf að borga minna en 3 milljarða. Samt vilja þau ekki hleypa Sameinuðu þjóðunum að málinu. Allt þetta mál lýsir Bandaríkjastjórn í hnotskurn.