Galileo ræðst á GPS

Punktar

Evrópusambandið hefur ákveðið að koma Galileo staðarákvörðunarkerfinu til framkvæmda árið 2006 og ljúka því árið 2008. Galileo er gervihnattakerfi, hliðstætt GPS-kerfinu bandaríska, sem nú er notað, til dæmis á Íslandi. Evrópusambandinu þykir ótraust að hafa slíkt kerfi eingöngu í höndum bandaríska stríðsmálaráðuneytisins eins og það er nú skipað. Þar sem Rumsfeld stríðsmálaráðherra getur fyrirvaralaust skrúfað fyrir kerfið, þegar hann er í vondu skapi, hefur verið hætt evrópskum deilum um, hvort hagkvæmt sé að hafa tvöfalt staðsetningarkerfi í heiminum. Ákvörðunin um Galileo var studd af öllum málsaðilum, meira að segja Bretlandi, sem studdi Bandaríkin í stríðinu gegn Írak. Ákvörðunin um Galileo er eitt skref af mörgum á leið Evrópu í átt til sjálfstæðis gagnvart Bandaríkjunum. En Barry James hjá International Herald Tribune segir ákvörðunina hafa þá hliðarverkun, að flugumferðarstjórar verði óþarfir. Það eru vondar fréttir fyrir þá, sem hafa tekjur af slíku hér á landi.