Paul Krugman, einn aðaldálkahöfundanna hjá New York Times, hefur tekið eftir forustugrein í hinu mjög svo íhaldssama Financial Times, sem ég hef misst af. Í grein FT segir, að “geðsjúklingarnir stjórna hælinu”, þegar skattalækkunarstefnu George W. Bush er lýst. FT hefur aldrei áður notað orðið “geðsjúklingar” til að lýsa ráðamönnum ríkis, hvað þá Bandaríkjanna. Krugman segir FT hafa sagt, að ríkisstjórn Bandaríkjanna sé “ekki nóg að rústa skipan alþjóðamála”, heldur hyggist hún líka “rústa tekjuskiptingarkerfi Bandaríkjanna”. Krugman leggur áherzlu á, að stjórn Bandaríkjanna sé ekki skipuð íhaldsmönnum, heldur róttæklingum, sem séu af ásettu ráði að setja allt á annan endann í efnahags- og fjármálum Bandaríkjanna til að afnema velferðarkerfið. Hann telur, að lánardrottnar Bandaríkjanna muni fyrr en síðar hætta afneitun sinni og átta sig á, að efnahagskerfi landsins sé á hraðferð til fjandans.