Rannsókn við Háskóla Íslands hefur staðfest, að DV og Morgunblaðið voru Sjálfstæðisflokknum hliðholl í fréttaflutningi í borgarstjórnarkosningunum fyrir ári, en Fréttablaðið hlutlaust. Þegar ég var ritstjóri DV var blaðið ekki hlutdrægt. Er ég hætti störfum í árslok 2001, hoppaði blaðið yfir á hægri vænginn, svo sem komið hefur fram í tvennum kosningum. Á sínum tíma hélt ég fram, að ekki væri rúm fyrir fleiri dagblöð en Morgunblaðið á flokksvæng Sjálfstæðisflokksins. Enda kom á daginn, að lestur DV hefur samkvæmt tölum Gallup hrapað úr 36% þjóðarinnar niður í 22% þjóðarinnar síðan ég hætti fyrir hálfu öðru ári og blaðið gerðist flokksblað.