Fingraför í vegabréfi

Punktar

Leiðtogar ríkja Evrópusambandsins samþykktu á fundi sínum í Grikklandi að stofna ný vegabréf og vegabréfsáritanir með stafrænum fingraförum og augasteinsförum, sem eiga að hindra falsanir þessara eftirsóttu skjala og auðvelda framkvæmd Schengen-samkomulagsins um frjálsar ferðir innan sambandsins. Byrjað verður á stafrænum vegabréfsáritunum til að geta fylgzt með grunsamlegu aðkomufólki. Thomas Fuller segir frá þessu í International Herald Tribune. Stóri bróðir er orðinn magnaðri í dag en hann var fyrir einni öld, þegar menn fóru um allan heim án þess að hafa nein skilríki. Áhugamenn um persónuvernd óttast, að yfirvöld muni vilja ganga á lagið með fleiri upplýsingum um fólk. En það er einmitt helzta hryðjuverk og afrek Osama bin Laden að hafa ýtt vesturlöndum hraðar fram eftir vegi lögregluríkisins.