Stórblöð Evrópu eru ekki ánægð með verðandi forseta Evrópusambandsins á næsta sex mánaða tímabili. Samkvæmt sjálfvirkri útskiptareglu tekur stórglæpamaðurinn Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, við hinu mikilvæga hlutverki á viðkvæmum tíma í sögu sambandsins. Stórblöðin rekja af því tilefni hagsmunaárekstra Berlusconi og fjölmiðlaofbeldi hans, árásir hans á dómskerfið og ný lög, sem hann hefur látið ítalska þingið setja um friðhelgi forsætisráðherrans fyrir dómskerfinu. CNN rekur ummæli ýmissa stórblaða, sem telja næsta hálfa árið verða svart misseri í sögu Evrópusambandsins.