Ekki veit ég, hvort Íslendingar á faraldsfæti gera sér grein fyrir, að hægt er að handtaka þá í Bandaríkjunum, saka þá um aðild að hryðjuverkum, loka þá inni án dóms og laga eins lengi og forsetanum þóknast og dæma þá síðan í leynilegum réttarhöldum. Þetta er brot á Genfarsáttmálanum, en eigi að síður kaldur raunveruleikinn í ríki, sem hefur yfirgefið vestrænt réttarfar. Í Guardian segja Nicholas Watt og Vikram Dodd frá mótmælum brezkra ráðherra út af tveimur brezkum ríkisborgurum, sem sitja í leynilegu fangelsi í Bandaríkjunum og sæta hótun um dauðarefsingu, ef þeir játa ekki sakir.