Þegar stórfyrirtækjum hefur fækkað niður í þrjú eða færri í hverri grein, svo sem hefur orðið hér á landi í bönkum, olíuverzlun, tryggingum og samgöngum, má slá því föstu, að ráðamenn þeirra hafi samráð sín í milli um verð og margt fleira, svo sem aðgerðir gegn nýjum aðilum á markaði. Samráð fáokunarfyrirtækja er einfaldasta og fljótlegasta leið þeirra í markaðshagkerfinu til að efla hag fyrirtækjanna og hluthafa þeirra á kostnað almennings. Gera má ráð fyrir, að ráðamenn fyrirtækjanna gangi eins langt og þeir þora og dómvenja leyfir. Ef ríkiskerfið herðir aðgerðir gegn fáokun, má búast við tímabundnum erfiðleikum fyrirtækjanna við að laga sig að nýjum aðstæðum, svo sem nú er orðin raunin hér á landi. Það breytir því ekki, að rökrétt endastöð markaðshagkerfisins er einokun.