Textastíll
Fegurð
Erfiðar eru langar málsgreinar, en geta verið heppilegri en skornar: “Til að skýra, hvers vegna Bosníumenn, Serbar og Króatar hata hverjir aðra verða sagnfræðingar ekki aðeins að kanna aldagamlan mun á þjóðerni og trúarbrögðum, heldur einnig önnur ágreiningsefni í þúsund ára erfiðri sögu þeirra.” (34 orð)
Þetta geta líka verið þrjár málsgreinar: “Sagnfræðingar hafa reynt að skýra, hvers vegna Bosníumenn, Serbar og Króatar hata hverjir aðra. Rætur ágreiningsins eru oft taldar vera í aldagömlum mun á þjóðerni og trúarbrögðum. En einnig þarf að kanna annan ágreining í þúsund ára erfiðri sögu þeirra.”
Málsgreinar eru of langar, ef það tekur langan tíma að komast að virku sögninni. Ef menn þurfa þar á eftir að lesa slump af aukasetningum. Ef þeir hika við hverja truflunina á fætur annarri. Prófaðu að lesa setningarnar þínar án þess að draga andann á lofti.
Komdu snemma með frumlagið. Ekki: “Þar sem flestir nýstúdentar breyta námi sínu að minnsta kosti einu sinni ættu fyrsta árs námsmenn ekki að hlaða dagskrá sína úr aðalnámsefninu.” Betra: “Fyrsta árs námsmenn ættu ekki að hlaða dagskrá sína úr aðalnámsefninu, þar sem flestir nýstúdentar … ” o.s.frv.
Komdu snemma með sagnorð og andlag. Ekki: “Skilningur Marel á burðarásum hagnaðar þess á markaði raftækja í Asíu hjálpaði því að nýta tækifæri í Afríku”. Heldur: “Marel gat nýtt tækifæri í Afríku, því að það skildi burðarása hagnaðar þess á markaði raftækja í Asíu.”
Truflaðu ekki samband frumlags og sagnorðs. Ekki. “Sumir vísindamenn, af því að þeir skrifa stíl, sem er ópersónulegur og hlutbundinn, geta ekki tjáð sig við leikmenn.” Betra er: “Sumir vísindamenn geta ekki tjáð sig við leikmenn, af því að þeir skrifa stíl, sem er ópersónulegur og hlutbundinn.”
Truflaðu ekki samband sagnorðs og andlags. Ekki: Við verðum að þróa, ef við ætlum að vera samkeppnishæf við önnur fyrirtæki á svæðinu, grundvöll þekkingar á nýjungum í greininni.” Betra: “Við verðum að þróa grundvöll þekkingar á nýjungum í greininni, ef við ætlum að vera samkeppnishæf við önnur …”
Forðastu langar kynningarklausur, langt frumlag og truflanir milli frumlags og sagnorðs annars vegar og milli sagnorðs og andlags hins vegar. Gáðu, hvort þú getur lesið textann upphátt, án þess að reka í vörðurnar eða grípa andann á lofti.
Þegar þú þarft að skrifa langa málsgrein, skaltu ekki bæta við hverri setningunni á fætur annarri, heldur nota milliorð, sem vísar til frumlagsins: “Leonardo da Vinci var greindur maður, rekinn áfram af óseðjandi forvitni og knúinn draumsýn um listræna fullkomnun.”
Ef þú raðar saman aukasetningum aftast í málsgrein, er best að raða þeim þannig, að þær stystu komi fyrst og þær lengstu og flóknustu síðast. “… sambandsins milli hlutlægra vísinda og mannlegra gilda, sem endurpegla siðferðilegt val okkar.”
Oft þarf nákvæmari smáorð. Ekki: “Einkunnabólga er víða vandamál og leiðir til gengislækkunar góðra einkunna og verður ekki leyst með erfiðari prófum.” Heldur: “Einkunnabólga er víða vandamál, af því að hún leiðir til gengislækkunar góðra einkunna, en leysist ekki með erfiðari prófum.”
Málsgrein verður glæsileg, þegar í henni er jafnvægi milli þátta, þar sem hver endurómar annan í hljómi, ryþma, gerð og meiningu. Churchill: “.. þangað til, þegar guð lofar, hinn nýi heimur með öllum sínum mætti og afli stígur fram til að bjarga gamla heiminum og frelsa hann.”
Gibbon: “Á annarri öld náði Róm yfir besta hluta jarðarinnar og siðmenntaðasta fólkinu. Landamærin voru varin af gamalli frægð og öguðu hugrekki. Mildandi áhrif laga og siða höfðu sameinað skattlöndin. Friðsamir íbúar þeirra notuðu og misnotuðu auð og lúxus ríkisins.”
Glæsistíll endar málsgreinar með krafti. Þú getur gert það með því að enda á sterku orði eða pari af sterkum orðum. Einnig með forsetningarlið eða viðhengi, eða með því að enda á orði, sem minnir á fyrra orð í málsgreininni.
“Langt frá því að vera lokuð inni í eigin skinni, í dýflissum okkar sjálfra, getum við núna séð, að hugur okkar tilheyrir á eðlilegan hátt sameinuðum huga, huga sem sameinar allt sem er huglægt, einkum tungumálið sjálft, og að húð okkar er ekki nein landamæri, heldur tenging innri og ytri lífsreynslu.” (J.C. Oates)
Leo Trotsky: “Um hádegið varð Petrograd aftur vettvangur átaka. Alls staðar heyrðist í rifflum og vélbyssum. Ekki var auðvelt að sjá, hver skaut hvar. Eitt var ljóst, fortíðin og framtíðin skiptust á skotum. Ungir drengir skutu af nýfengnum byssum. Skotfærageymslan var rústuð.”
Halldór Laxness: “Ef stórt er spurt, verður oft lítið svar væni minn. Hann séra Jón boðaði fátt hér áður og enn færra nú. Sem betur fer, mundi margur segja. Ekki er það nú samt svo að við hérna séum á móti kenningum, og allra síst ef þarf ekki að fara eftir þeim. Kenningar eru til skemmtunar.”
Ezra Pound: “Kennarinn er hætta. Hann skilur sjaldan eðli sitt og stöðu. Kennari er maður, sem verður að tala í klukkustund. Frakkland kann að hafa náð forustu meðal menningarvita, þegar kennslustundin var þar stytt í 40 mínútur. Vandi kennarans er að hafa næg orð til að fylla 40 eða 60 mínútur.”
Einar Ben: “Brúnirnar þyngjast. Þeir harðna á hvarm./Það hrökkva af augunum neista él./Riðullinn þyrpist með arm við arm./Það urgar í jöxlum við bitul og mél./Þeir stytta sporin. Þeir stappa hófum/og strjúka tauma úr lófum og glófum./Höfuðin lyftast. Hin lifandi vél/logar af fjöri undir söðulsins þófum.”
Hemingway: “Allt er öðru vísi núna. Líklega hafa fjarlægðir breyst. Allt verður smærra, þegar þú eldist. Svo eru vegirnir betri og ekkert ryk. Áður fór ég bara í hestvagni. Oftast gekk ég. Ég horfði á skugga og vatnspósta. Og skurði líka, hugsaði hann. Ég gáði að skurðum alls staðar.”
Hugsaðu um orðafjöldann í málsgreinum þínum. Farðu að gæta þín, ef þau fara upp fyrir fimmtán. Og þú ert kominn í hættu, þegar þau fara upp fyrir þrjátíu. Það einfalda er oftast best, því að minnst hætta er á mistökum, þegar málsgreinarnar eru stystar. Mundu eftir Hemingway.
Shaw: “Skólastjóri er persóna, sem losar foreldra við börn gegn þóknun. Hann býr til barnafangelsi, ræður kennara sem fangaverði. Hann felur grimmd og óeðli aðstæðnanna með því að kvelja börnin, ef þau læra ekki. Hann segir þetta ferli, sem öll fífl og illmenni geta ráðið við, vera göfuga kennslu.”
Gallinn við myndlíkingar og aðrar aðferðir til að framkalla glæsibrag er, að þér kann að mistakast það og verða svo svekktur, að þú hættir ekki á slíkt aftur. Aðeins er hægt að mæla með því, að þú takir í góðu skapi á móti mistökum, sem við öll lifum af.
Við skulum forðast flókinn texta og þungmeltan. Ef við kærum okkur ekki um að berjast gegnum þvælinn texta annarra höfunda, eigum við ekki að bjóða lesendum okkar upp á slíkt. Það, sem þú vilt, að aðrir skrifi fyrir yður, skulið þér og þeim skrifa.
Stundum er flækjan markviss, fyrirtæki er að þyrla upp ryki: “Þegar þjónustaðar eru tvær milljónir bílaeigenda í Kaliforníu, geta orðið mistök. Samt vill Sears að þú vitir, að fyrirtækið mundi aldrei af ásettu ráði bregðast því trausti, sem neytendur hafa sýnt því í 105 ár.”
Fyrst og fremst þarf texti að skila tilgangi sínum. Blaðamenn skrifa þannig, að málið komist til skila. Þeir eru ekki að skrifa bókmenntir, heldur sannar sögur, sem ekki má misskilja. Mikið af þeim texta, sem rekur á fjörur blaðamanna, er saminn af sérfræðingum, sem ekki kunna mikið í tungumálinu.
Við getum reynt að skilja flókinn og þvælinn texta, en við ráðum aldrei við texta, sem skortir samhengi. Byrjaðu sérhverja málsgrein á þætti, sem er stuttur og auðskilinn og kynnir lengra og flóknara framhald.
Ekki segja: “Á síðustu árum hefur innleiðing nýrra túlkana á gildi fundar Ameríku leitt til endurmats á stöðu Kólumbusar í sögu vesturlanda.” Heldur: “Jared Diamond hefur endurmetið stöðu Kólumbusar í sögu vesturlanda, af því að hann hefur túlkað fund Ameríku á nýjan hátt.”
Til að átta sig á samhengi einingar, þarftu 1) að láta stuttan og auðskilinn texta kynna málið, 2) síðan láta koma fókus málsins, sem afgangur málsliðarins þróar, skýrir eða styður, 3) og láta málsliðinn síðan enda á lykilatriðunum. Þetta gildir allt frá málsgreinum upp í langan texta.
Lesendur þurfa að sjá, hvernig allt skiptir máli fyrir fókusinn. Málsgreinar skipta máli, ef þær koma með bakgrunn eða samhengi, fókuspunkta málsliðar, röksemdafærslu, staðfestingar eða staðreyndir, útskýringar á aðferðum, tillit til annarra sjónarmiða.
Lesendur þurfa að sjá, hvernig hlutum greinarinnar er raðað upp. Það getur verið í tímaröð eða hnitaröð eða rökréttri röð. Tímaröð er einföld. Hnitaröð myndar röð af súlum undir sameiginlegu þaki. Rökrétt röð er flóknust.
Ekki hvatning: “Þegar háskólastúdentar fara út að slaka á um helgar, fara sumir á skallann, sturta í sig nokkrum drykkjum á stuttum tíma, verða öskufullir og líða jafnvel út af. Þessi hegðun hefur breiðst út í háskólum. Áður voru það einkum karlar, sem gerðu þetta, en núna eru það einnig konur.”
Hvatning: “Alkóhól hefur verið stór hluti af háskólalífi í hundruð ára. Á krám og í heimahúsum drekka stúdentar og sumir þeirra mikið. En nú fara menn meira á skallann en áður, þegar þeir fara út um helgar. Menn sturta í sig nokkrum drykkjum á skömnmum tíma, verða öskufullir og líða jafnvel út af.
Hvað með það? Öskufyllerí er ekki skaðlaust. Á síðustu sex mánuðum hafa tveir menn látist, margir slasast og mikið eignatjón orðið af þess völdum. Öskufyllerí er hegðun, sem er ekki lengur skemmtun, heldur ábyrgðarleysi, sem drepur og slasar, ekki bara fylliraftana, heldur líka fólkið í kring.”
Alhæfingin hljóðar svo: Lesendur eru líklegri til að skilja texta, þar sem málsgreinar, málsliðir, kaflar og greinar byrja á stuttum kafla sem rammar inn lengri og flóknari kafla, sem á eftir kemur. Við skulum taka nokkur dæmi um þetta:
Ekki skrifa: “Andstaða í Nevada gegn notkun ríkisins fyrir urðun úrgangs kjarnorkustöðva hefur verið hörð.” Heldur svona: “Nevada hefur barist hart gegn urðun úrgangs kjarnorkustöðva í ríkinu.”
Ekki skrifa: “Fullyrðing þingmannsins um, að efnahagsbati sé framundan vegna bjartra vona í hátækni, er ekki studd af staðreyndum málsins.” Heldur: Þingmaðurinn hefur engar staðreyndir til stuðnings þeirri fullyrðingu, að efnahagsbati sé framundan vegna bjartra vona í hátækni.”
Alla leiðina frá stuttri málsgrein yfir í heila grein þarf lesandinn fyrst að fá stutta hugmynd um eðli málsins, sem rammar inn lengri og flóknari texta, sem á eftir kemur. Hafðu þetta hugfast. Byrjaðu á því stutta og létta og láttu það langa og flókna koma á eftir.
Fegurð
“Ef stórt er spurt, verður oft lítið svar væni minn. Hann séra Jón boðaði fátt hér áður og enn færra nú. Sem betur fer, mundi margur segja.”
Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008
Hlé