Þegar fjögurra ára menntaskólanám er stytt um eitt níu mánaða skólaár, er eðlilegt að álykta, að bæta þurfi þriðjungi við hvert áranna, sem eftir eru, það er að segja bæta þremur mánuðum við hvert þeirra. Með því að þétta skólaárið má síðan búa til pláss fyrir venjulega lengd af sumarfríi eins og það er í hverri annarri vinnu. Ekki er hægt í senn að stytta námið og halda löngu sumarfríi. Tilraunir til slíks eru dæmdar til að gera íslenzkt menntaskólanám lakara en hliðstætt nám í útlöndum, þar sem skólaárið er lengra en hér. Áform menntaráðuneytisins fela í sér gengislækkun menntaskóla. Við erum vön sjónhverfingum í pólitíkinni, en lakara er, ef pólitíkin ætlar að reka skólakerfið á sjónhverfingum.