William Pfaff hefur verið á ýmsum ráðstefnum Bandaríkjamanna og Evrópumanna, þar sem fjallað er um vaxandi mun sjónarmiða þessara heimshluta, nú síðast á ráðstefnu í Portúgal. Hann segir í International Herald Tribune, að bandarískir þáttakendur geti alls ekki skilið, af hverju evrópskir þáttakendur hafa misst traust á Bandaríkjunum. Hann segir Bandaríkjamenn virðast halda, að bilið minnki, ef málin séu skýrð betur út fyrir Evrópumönnum. Bandaríkjamenn vilji alls ekki hlusta á aðra og þeir átti sig ekki á, að viðburðir veraldarsögunnar og aðgerðir Bandaríkjanna frá 11. september 2001 til þessa dags hafa leitt til almennrar andúðar á Bandaríkjunum. Sambúð Bandaríkjanna og Evrópu verður sennilega aldrei söm aftur, segir Pfaff.