40 andspyrnuhreyfingar

Punktar

Rithöfundurinn Tariq Ali segir í Guardian, að ástandið í Írak sé mun verra en það var á tímum Saddam Hussein. Andspyrnuhreyfingarnar séu um 40 talsins, enda hati landsmenn almennt hersetuna. Skáldin, sem voru landflótta á tímum Saddam Hussein, yrki núna níð um Bandaríkin og fylgisveina þeirra. Hann telur, að bandaríski herinn verði að lokum rekinn úr landi, ef hann forði sér ekki í tæka tíð. Hann er að tala um nýtt Vietnam. Almennt segja fréttaskýrendur, að Bandaríkin séu búin að fá almenning í Írak upp á móti sér. H.D.S. Greenway segir í Boston Globe, að hjálparmenn setuliðsins séu almennt álitnir vera kvislingar. Hann segir setuliðið vera komið út í kviksyndi, sem hafi áður ekki verið ógnun við heimsfriðinn, en sé nú orðið það vegna aðgerða Bandaríkjanna.