Harður heimur

Greinar

Skipulagt ofbeldi er nánast daglega í fréttum fjölmiðla. Gömlum konum er nauðgað og hópar vandræðaunglinga safnast saman til að ráðast inn á heimili nýbúa, hvort tveggja samkvæmt nýjustu fréttum. Mannlíf á Íslandi er orðið harðara en áður, líkara því sem við heyrðum áður frá útlöndum.

Fyrrum var ofbeldi á Íslandi einkum talið vera skipulagslaus og tilviljanakenndur verknaður fólks undir áhrifum eiturlyfja, einkum áfengis. Ljóst er, að nú er ofbeldi að verða skipulagðara og einbeittara en áður, alveg eins og fjármálaglæpir á borð við bankarán og innherjaviðskipti eru oft markvissari en áður.

Lögreglan tekur enn á þessum málum eins og áður gafst svo vel, samkvæmt formúlunni: Þetta er ungt og leikur sér. Reynt er að róa unglinga og nudda þeim í átt til heilbrigðara lífs. Þessi aðferð getur enn virkað að hluta til í harðari heimi, en dugar tæpast ein og sér, því að einbeittur brotavilji ræður ferð ógæfumanna í vaxandi mæli.

Nú er ekki lengur hægt að reikna með, að flestir vandræðaunglingar jafni sig með árunum. Til sögunnar eru komnar breiðar og gylltar brautir í aðra átt. Einkum felst aðdráttarafl í eiturlyfjasölu. Hún er orðin skipulögð atvinnugrein, sem hefur í för með sér aukna peningaglæpi til að fjármagna neyzlu.

Með innflutningi fólks frá fjarlægum löndum hafa orðið til ný vandamál, sem eru vel þekkt í nágrannalöndum okkar, þar sem meiri reynsla er af þjóðflutningum. Margt er þetta duglegt fólk, sem fær vinnu og vekur öfund atvinnulausra og skillítilla manna, sem telja innflytjendur taka frá sér störf.

Hin hliðin á vandamálinu er, að hluti innflytjenda og afkomenda þeirra lagast ekki að nýju umhverfi og lendir í vafasömum hópum, sem vinna gegn lögum og rétti í landinu, rétt eins og hliðstæðir hópar innfæddra. Milli slíkra hópa hafa þegar orðið væringar, svo sem sjá má af nýlegum fréttum.

Stóra vandamálið er samt eiturlyfjasalan. Tilvist hagkerfis utan laga og réttar er meginástæða skipulagðari og einbeittari glæpa. Þeir sem lifa í neðanjarðarhagkerfinu eru hræddari við handrukkara og aðra umboðsmenn kerfisins en við umboðsmenn laga og réttar í landinu.

Þetta hlýtur að vera helzta orsök þess, hversu illa lögreglunni gengur að rekja slóðina upp valdapýramída eiturlyfjasölunnar. Landið er svo lítið og hefur svo hentug landamæri, að barátta gegn neðanjarðarhagkerfi glæpamanna ætti að vera mun auðveldari en annars staðar. Samt er lítill árangur sjáanlegur og ástandið fer sífellt versnandi.

Kominn er tími til að taka skipulagða glæpi fastari tökum, allt frá hópum vandræðaunglinga, sem hyggjast ráðast inn í híbýli fólks, yfir í toppana í valdapýramídum neðanjarðarhagkerfisins. Kominn er tími til að hætta að segja: Þetta er ungt og leikur sér. Kominn er tími til að átta sig á harðari heimi.

Jónas Kristjánsson

DV