Græðgisvæðingin

Greinar

Þegar menn býsnast yfir græðgi og siðleysi yfirmanna Kaupþings-Búnaðarbanka, sem ætluðu að ná sér í hundruð milljóna króna með kauparétti, vilja gleymast önnur málsatriði, sem ekki skipta minna máli.

Í fyrsta lagi segir sagan okkur, að við þessu mátti búast. Ráðamenn Kaupþings fluttu á sínum tíma mistök sín yfir á lífeyrissjóðinn Einingu og rústuðu hann, meðal annars af því að tekjur þeirra sjálfra voru árangurstengdar Kaupþingi en ekki Einingu.

Fjöldi manns fór flatt á þessu, sem frægt varð fyrir löngu. En fjármálaeftirlit ríkisins er því miður bara máttlaus grínfígúra og man ekki neitt. Samt átti uppistandið út af Einingu að segja öllum, að ráðamönnum Kaupþings væri ekki treystandi fyrir fé almennings.

Í öðru lagi er svo þáttur bjánanna í bankaráðinu, sem sömdu við hina gráðugu og siðlausu yfirmenn og létu selja sér þá hugmynd, að yfirgengileg fríðindi bankastjóra væru nauðsynleg vegna erlends samkeppnisumhverfis. Hverjir eru þessir menn?

Eru þeir hæfir til að sitja í bankaráði, sem eru svo fjarri íslenzkum veruleika, að þeir höfðu ekki hugmynd um, hvað var frambærilegt í íslenzku samkeppnisumhverfi um peninga almennings og lífeyrissjóða? Alvöru fjármálaeftirlit mundi hafa skoðun á því.

Í þriðja lagi er svo mismunun í skattheimtu. Vegna forréttinda fjármagns umfram vinnu hefðu yfirmenn Kaupþings-Búnaðarbanka haldið eftir 90% af ránsfengnum, en ekki þau 60%, sem almenningur heldur eftir af sínum heiðarlegu vinnutekjum.

Ráðamenn landsins komast upp með að skattleggja afrakstur almennings um 40% af vinnutekjum, en leyfir sér að skattleggja fjármagnstekjur forréttindastétta um aðeins 10%. Þetta er svipað ástand og leiddi til frönsku byltingarinnar.

Í fjórða lagi fæðast flest græðgisverk af þessu tagi í einkavæðingunni, allt frá kauparétti í Kaupþingi yfir í starfslokasamning fyrrverandi forstjóra Landssímans. Þau eru framin, þar sem ríkisrekstur breytist í einkarekstur.

Græðgisvæðingin í einkavæðingunni hefur svo leitt til græðgisvæðingar á jaðri ríkisrekstrar, þar sem stjórn Byggðastofnunar samdi við óhæfa forstjóra um eftirlaun, sem í öðru tilvikinu voru stjarnfræðileg.

Stóri vandinn er græðgisvæðing hugarfarsins, sem lýsir sér í, að bankastjórar Kaupþings-Búnaðarbanka virðast hafa fengið höfuðhögg. Þeir skilja ekki neitt í uppistandinu og segjast jafnvel hafa orðið fyrir einelti.

Einkavæðing ríkisvaldsins hefur verið rússnesk hér á landi. Einokun og fáokun ríkisins er breytt í einokun eða fáokun einkaaðila, sem sjá sér færi á meiri græðgi og siðleysi en venjulegt og hefðbundið þjóðfélag sættir sig við.

Einkavæðing var fínt orð fyrir fáum árum. Nú telja flestir, að hún sé í rauninni lítið annað en græðgisvæðing.

Jónas Kristjánsson

DV