Sjávarkjallarinn

Veitingar

****
Staður með stæl

Sjávarkjallarinn er í bakhúsi, sem tengist Geysishúsinu við Austurstræti með glerhúsi, gengið inn Vesturgötumegin. Steinhlaðinn og dimmur kjallari með köldum nútímainnréttingum er vel sóttur af erlendum ráðstefnugestum, sem hræðast ekki hátt verð og kunna við stílblöndu matargerðarinnar. Þetta er staður með stæl.

Veitingahúsið leynir sér ekki, þegar komið er inn í bíslagið. Gengið er niður tröppur, þar sem nokkur borð eru utan við steinhleðsluna. Þegar inn er komið, leynir sér ekki heldur fagmennskan í innréttingum og móttöku. Hér kostar 8.000 krónur að borða, hugsaði ég. Enda kom á daginn 6.000 krónur kvöldmatur og 2.000 krónur helmingur í fremur ódýrri rauðvínsflösku.

Þjónustan var faglega hress og svaraði öllu um matinn. Á matseðli voru fimm forréttir á 1.500 krónur að meðtaltali og sjö aðalréttir á 2.800 krónur að meðaltali. Einnig var boðið upp á tvo þriggja rétta seðla á 5.900 krónur að meðaltali. Mælt var með smakkseðli, þar sem maður gat smakkað af fjórum forréttum, fjórum aðalréttum og fjórum eftirréttum á 5.900 krónur.

Það reyndist vera hagstætt verð fyrir minnisstæða veizlu, þar sem borðið var í þrígang fyllt fjölbreytilegum diskum með fögrum og sumpart mjög góðum réttum. Þannig mátti kynnast fjölbreytilegum blandstíl matargerðar hússins. Við vorum fjögur, öll harla ánægð með útkomuna. Hér var kominn verðugur fulltrúi í dýrari, en ekki dýrasta kanti íslenzkra veitingahúsa.

Vínlistinn var óvenjulega og þægilega skipulagður eftir þrúgutegundum, en ekki vínsvæðum. Ég tók eftir áströlsku Penfold Koonunga Hill rauðvíni frá 2001, magnaðri blöndu af Cabernet Sauvignon og Shiraz. Það kostaði innan við 4.000 krónur flaskan, og vakti almennt hrós borðgesta, sem hesthúsuðu tvær flöskur með kvöldmatnum. Þetta var gott dæmi um, að rauðvín getur farið vel með fiski.

Meðan við biðum eftir matnum var okkur færður frábær beitukóngur á melónu og brauð með pistacio-hnetumauki og kryddaðri rósmarínolíu. Með reikningnum var okkur fært púrtvínsglas. Þetta var ókeypis rammi utan um mikla og góða veizlu, sem létti lund og magnaði samræðulist.

Bezti forrétturinn var undurljúfur humar, borinn fram með jarðsveppum og andalifur. Risahörpudiskur og kolkrabbi með koríander mislukkuðust hins vegar, af því að kolkrabbinn var allt of seigur. Sítrónukryddleginn lax var góður, svo og diskur af hráum japönskum sashimi-réttum með piparrót. Fallegt dádýrasalat með koríander enn og aftur var líka fyrirtaks forréttur.

Aðalréttirnir voru enn betri, sérstaklega blanda af ofurmeyru hreindýrakjöti og villistokkönd, en flögur af rauðrófu voru of áberandi í bragði. Einnig var góð blanda af skötusel og reyktri ýsu með austrænum lychee-ávöxtum. Lax með banana og hnetum var líka góður, í japanskt ættaðri sósu eins og sumir aðrir réttir staðarins. Lakari voru tveir saltfiskréttir, annars vegar djúpsteiktur og hins vegar steiktur. Sá síðarnefndi var ekki útvatnaður, afar saltur.

Lakari voru eftirréttirnir, nokkrar tegundir af ís, óþekkjanleg og fljótandi tiramisu-ostakaka, heitur búðingur og súkkulaðifroða. Næst sleppi ég þeim og halla mér heldur að sterku kaffi, sem var gott.

Ef ég skipti veitingahúsum landsins í tvo misstóra flokka þeirra sem ég vil og vil ekki heimsækja aftur, er Sjávarkjallarinn fortakslaust í hópi þeirra tiltölulega fáu, sem kalla á frekari kynni.

Jónas Kristjánsson

DV