Að hætti Hittíta

Greinar

Nýjasta og flóknasta tölvukeyrsla á samanburði tungumála sýnir, að íslenzka er eins og önnur indóevrópsk mál ættuð frá fornþjóðinni Hittítum, sem komu til sögunnar í Litlu-Asíu fyrir níu þúsund árum. Ef við erum þjóð á þeim forsendum, að við tölum sérstaka íslenzku, eigum við rætur að rekja til austurhéraða landsins, sem nú heitir Tyrkland.

Alltaf er fróðlegt að kanna, hvaðan sé komið og hvert sé farið. Við erum á eyju úti fyrir Evrópu, ef til vill á leið til Ameríku. Við búum við stjórnkerfi, sem er ættað frá hefðum meginlands Evrópu, en hvorki frá Bretlandi né Bandaríkjunum. Rammi lífs okkar felst í reglum frá Róm og Napóleon, sífellt yngdum upp og endurnýjuðum á skrifstofum í Bruxelles.

Hagkerfi nútímans í þessum heimshluta er ættað frá Ludwig Erhard, sem var efnahagsráðherra og síðar kanzlari Þýzkalands upp úr miðri síðustu öld. Hann fínslípaði hinn félagslega markaðsbúskap, sem átti að sætta vinnu og fjármagn, nýta kosti markaðarins og setja öryggisnet undir þá, sem minna mega sín. Þessa stefnu reka vinstri og hægri flokkar enn í dag.

Í Bandaríkjunum styður hálf þjóðin sjónarmið, sem eru langt út af þessu korti, eins konar villt vestur, sem rekið er í þágu auðmanna, er búa í afgirtum hverfum, styðja kristilegt trúarofstæki og róttæka einkavæðingu án félagsfjötra, vilja gjarna senda unga menn í tilefnislaus stríð við aðrar þjóðir og fyrirlíta vilja annarra ríkja og fjölþjóðasamtaka.

Mest selda hetjudúkka í Bandaríkjunum um þessar mundir er 30 sm eftirlíking af George W. Bush Bandaríkjaforseta í herklæðum. Fjölmargir Bandaríkjamenn trúa, að Saddam Hussein hafi tengzt hryðjuverkahópum Al Kaída og árásinni á World Trade Center, svo og að Írak hafi búið yfir gereyðingarvopnum. Ekkert af þessu reyndist rétt vera, en það truflar ekki hetjur.

Kanadamenn hneigjast að evrópskum hefðum, sem Bandaríkjamenn hafna. Þeir styðja til dæmis félagslegan markaðsbúskap eins og vinstri og hægri menn í Evrópu. Ruglaður væri talinn hver sá stjórnmálamaður í Kanada, sem tæki undir sjónarmið helztu ráðherra Bandaríkjanna. Vaxandi reginmunur er á afstöðu þessara nágrannaþjóða til flestra mikilvægra mála.

Í Bretlandi hefur kristilegur trúarofstækismaður leitt ríkið gegn vilja þjóðarinnar til stuðnings við hernaðarlegt ofbeldi Bandaríkjanna, en ekki við ofbeldi þeirra á öðrum sviðum, svo sem í heimsviðskiptum og umhverfismálum, málum fjölþjóðastofnana og afstöðunni til hryðjuverka Ísraelsmanna í Palestínu. Brezka þjóðin er enn evrópsk upp til hópa.

Guðbergur Bergsson sagði nýlega í viðtali við Guardian, að Íslendingar gangi með bandaríska glýju og hnattvæðingarglýju í augum. Sumir segja, að bandarísk landnemahugsun höfði til íslenzkra afkomenda landnámsmanna, en langsótt má það teljast í rauðskinnalausu landi. Líklegra er, að atvinnuástand á Vellinum ráði undirgefni Davíðs og Halldórs.

Græðgisvæðing fjármála sannar ekki, að við séum að sigla frá Evrópu yfir Atlantshafið til Bandaríkjanna. Líklegra er, að við finnum fyrir evrópskt Kanada á þeirri leið og höldum áfram að harma einelti stjórnvalda gegn öryrkjum og annað fráhvarf frá evrópskri sátt um félagslegan markaðsbúskap að hætti Hittíta.

Jónas Kristjánsson

DV