Lögregluofbeldi

Greinar

Simon Chapman hefur setið í fangelsi síðan hann var gripinn í lögregluóeirðum í tengslum við toppfund Evrópusambandsins í Saloniki í júní. Myndskeið sjónvarpsstöðvar sýnir hann þar með bláan bakpoka. Annað myndskeið sýnir lögreglumenn troða sprengiefni í svartan bakpoka. Lögreglan lýgur, að Chapman hafi verið með svarta pokann, þegar hann var handtekinn.

Ítalskir lögreglumenn urðu að játa, að þeir höfðu sjálfir komið fyrir benzínsprengjum í skóla, þegar fundur auðríkja heims var haldinn í Genova í júlí árið 2001. Þeir notuðu fölsunina til að ráðast á sofandi hóp ungmenna, sem höfðu tekið skólann á leigu fyrir svefnskála. Lögreglan misþyrmdi þeim, svo að gera varð að sárum 60 ungmenna.

77 lögreglumenn voru dæmdir fyrir óeirðirnar. Fyrir dómstóli kom fram, að meðal annars höfðu þeir falsað sönnunargögn og látið líta út fyrir, að einn lögreglumaðurinn hefði orðið fyrir hnífstungu. Engin furða er, þótt víða vantreysti menn lögreglunni á þessum síðustu tímum mikils ágreinings og mótmæla út af grundvallaratriðum í stjórnmálum.

Eftir auðríkjafundinn í Genova kom í ljós, að lögreglan hafði stöðvað þúsundir friðsamra mótmælenda við landamærin en hleypt inn þekktum nýnazistum, sem síðan fengu að brjóta rúður í borginni og kveikja í bílum til að koma óorði á mótmælendur, svo að lögreglan fengi tækifæri til að efna til lögregluóeirða víðs vegar um borgina.

Sama ár voru spænskir lögreglumenn áminntir í Barcelona fyrir að klæða sig í gervi mótmælenda og brjóta rúður á veitingahúsum til að koma illu af stað. Í Washington í Bandaríkjunum fann lögreglan svokallaðan piparúða og benzínsprengjur á skrifstofu mótmælenda. Sönnunargögnin reyndust síðan vera þurrkaður chili-pipar og terpentína.

Við sjáum framhaldsþætti í sjónvarpi, þar sem hetjur í brezkri leyniþjónustu eiga í höggi við stórhættulegt fólk, sem mótmælir umhverfisspjöllum, kjarnorkuúrgangi, hnattvæðingarfundum og fleiru slíku. Slíkir þættir eiga að telja fólki trú um, að friðsamir borgarar, sem hafa skoðanir, megi gjarnan vera fórnardýr lögregluóeirða.

Nýlega sáum við í sjónvarpi myndskeið af hópi lögreglumanna í Charleston ganga með barsmíðum af offitusjúklingi dauðum. Slík myndskeið hafa verið árviss í fréttum af lögregluofbeldi í Bandaríkjunum, sem smám saman eru að breytast í lögregluríki í kjölfar ótta við hryðjuverk.

Í ljósi vaxandi vanda á þessu sviði er ástæða til að fagna, að ráðamenn í lögreglunni á Íslandi skuli ekki bera blak af skallabullum, sem stunda lögregluofbeldi og skjalafals.

Jonas Kristjansson

DV