Græðgi og gullfiskar

Greinar

Eins og eldur í sinu um óðul yfirstéttarinnar fer græðgisvæðingin, sem fylgir einkavæðingunni. Bankastjórar bera sig saman við erlenda bankastjóra og forsætisráðherra vill ekki vera minni en bankastjórar. Hans starfslokasamningur á að nema rúmlega hálfum milljarði samkvæmt reikningi Alþýðusambandsins.

Skemmtilegar eru röksemdir græðginnar. Forsætisráðherra segist nánast liggja við dauðans dyr og telur ævi sína muni enda um sextugt. Aðrir ræða, hversu nauðsynlegt sé langþreyttum ráðherrum og þingmönnum að setjast snemma í helgan stein eftir að hafa verið á tauginni árum saman í pólitísku vafstri.

Ekki skal dregið í efa, að það getur tekið á taugar að lifa tvöföldu og jafnvel margföldu lífi, telja sig þurfa að lofa fólki gulli og gersemum upp í ermina á sér og þurfa síðan að útskýra svikin loforð. Það er líka þreytandi að þurfa að muna, hvenær maður laug hverju og hvernig maður geti haldið áfram að spinna vefinn.

En einnig getur verið þreytandi að vinna láglaunavinnu. Erfitt getur verið að skúra gólf í tvo áratugi, vita ekki, á hverju á að lifa síðustu viku mánaðarins, og fá síðan uppsagnarbréf í starfslokasamning. Ekki hefur verið borin saman streita og meðalævi stjórnmálamanna og bankastjóra annars vegar og púlsmanna hins vegar.

Í meira en öld hefur ekki verið eins mikill munur á Jóni og séra Jóni og þau jól, sem nú ganga í garð með hundruðum milljóna í jólasokki forsætisráðherra. Þeir, sem stjórna tekjum toppanna í þjóðfélaginu virðast markvisst vilja gera þeim kleift að éta þúsund kanilsnúða og drekka þúsund kaffibolla á dag í ellinni.

Hvað á bankastjóri að gera við treikvart milljarð krónur í bónus og hvað á forsætisráðherra að gera við hálfan milljarð í eftirlaunasjóð? Hvort tveggja er langt umfram það, sem almenningur getur ímyndað sér að hægt sé að eyða. Ekki eru þetta kröfur markaðsins, því að nóg er af fólki, sem býðst til stjórnmálastarfa.

Ekki alls fyrir löngu var sagt í fúlustu alvöru, að toppurinn í þjóðfélaginu eigi að hafa tvöfaldar tekjur botnsins. Raunveruleiki græðgisvæðingarinnar er tuttugufaldur munur, þrítugfaldur og fertugfaldur, þegar fríðindi á borð við starfslokasamninga og kauparétt eru talin með. Og munurinn fer ört vaxandi.

En þetta er hægt, af því að pólitíkusar vita af langri reynslu, að flestir kjósendur eru bjánar með gullfiskaminni. Eftir uppistand aðventunnar verður græðgisvæðing stjórnmálanna gleymd og grafin, þegar kemur fram á nýtt ár. Hvað þá þegar koma nýjar kosningar með ný loforð handa öryrkjum og sjúklingum á sífellt lengri biðlistum.

Græðgisvæðing stjórnmálanna er bein afleiðing þeirrar ógæfu, að nógu margir bjánar með gullfiskaminni leyfa fámennri yfirstétt að stjórna stóru og smáu í þágu yfirstéttarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV