Hausinn af Hussein

Greinar

Óræstilegur og einmana Saddam Hussein hafði ekki stjórnað einu eða neinu, þegar hann var dreginn upp úr rottuholu sinni í nágrenni Tikrit, allra sízt skæruliðum gegn bandaríska hernáminu. Í landinu eru að minnsta kosti 15 virk samtök skæruliða gegn hernáminu. Flest þeirra börðust gegn Hussein, þegar hann var við völd.

Þetta var ekki lengur reigður harðstjóri, heldur einmana öldungur, sem hafði mánuðum saman haldið til í skúmaskotum og rottuholum með kreppta hendi um fulla tösku af dollurum. Þetta var enginn Osama bin Laden eða Múhammeð Ómar, heldur uppgefinn flóttamaður, sem varðist ekki einu sinni, þegar hann var tekinn.

Myndirnar sýna, að mannkynið hefur lítið breytzt undir slæðu siðmenningarinnar. Ekki er lengur hægt að draga hinn sigraða í hlekkjum á eftir sigurvagni keisarans eins og í Róm fyrir tvöþúsund árum eða setja afhöggvinn haus hans á spjótsodd í borgarhliði. En það er hægt að niðurlægja hann með myndum.

Bush-ættin hefur sigrað Hussein-ættina, drepið synina og sýnt úfinn hausinn á föðurnum. Bandaríkjamenn gleðjast og sýna í könnunum aukinn stuðning við forseta sinn. Vinsældamælir hans hrökk úr 52 prósentum í 58 prósent og jafnsnöggt fjölgaði þeim úr 47 prósentum í 64 prósent, sem telja stríðið gegn Írak ganga vel.

Saddam Hussein verður dreginn fyrir dóm og sennilega drepinn, af því að George W. Bush vill það og af því að tugþúsundir Íraka eiga um sárt að binda af völdum harðstjórans. Heimamenn munu dæma um málið, en ekki fjölþjóðlegur dómstóll eins og áður, svo sem í Nürnberg, Kosovo, Austur-Tímor, Bosníu, Rúanda og Sierra Leone.

Ef alþjóðadómstóll færi með málið, mundu stríðglæpir Saddam Hussein gegn Íran komast í sviðsljósið. Hvattur af Bandaríkjunum og Bretlandi efndi hann til stríðs, þar sem milljón manns féllu, meðal annars fyrir efnavopnum, sem hann fékk hjá glæpamönnum, sem nú eru varaforseti og stríðsmálaráðherra Bandaríkjanna.

Saddam Hussein var vondur harðstjóri eins og margir aðrir, þar á meðal harðstjórarnir, sem Bandaríkin styðja í langtburtistan-ríkjunum norðan Afganistans. Haus hans var ekki sýndur, af því að hann er skíthæll, heldur af því að einu sinni var hann “okkar” skíthæll, sem hélt að hann gæti verið skíthæll fyrir eigin reikning.

Ekki hentar sigurvegurunum, að stríðið gegn Íran verði rifjað upp. Því munu réttarhöldin láta það liggja milli hluta, enda af nógu að taka. Réttlæti nær stundum fram að hluta, en hræsnin er eilífur sigurvegari. Og framhjá því verður ekki litið, að Saddam Hussein á ekki skilið neina samúð fyrir, að nú sé úr honum allur vindur.

Jónas Kristjánsson

DV