Græðgin hefur ekki aðeins heltekið forsætisráðherra okkar, nokkra bankastjóra og einkavæðingarforstjóra. Að mati ríkisskattstjóra nær græðgisvæðingin einnig til fyrirtækja, er ráða sérfræðinga til að komast undan hinni sáralitlu hlutdeild, sem fyrirtækjum er ætlað af skattbyrði landsins.
Viðbrögð sérfræðinga og forstjóra eru eins og í pólitík, bönkum og einkavæðingu. Forkláraðir farísear jesúsa sig í bak og fyrir og furða sig á grófu orðbragði ríkisskattstjóra. Það jaðrar raunar við meintan dónaskap fjölmiðla, sem níðast á ráðherra, er segist ramba við dauðans dyr.
Græðgisvæðingin er raunar ekki neitt séríslenzkt fyrirbæri, heldur hefur hún á síðustu misserum orðið að svinghjóli alþjóðastjórnmála. Ríkisstjórn Bandaríkjanna tók snemma eindregna forustu á þessu sviði, en nú eru ríkisstjórnir annarra auðríkja farnar að taka hana sér til fyrirmyndar.
Liðinn er tíminn, þegar Bandaríkin veittu Evrópu Marshall-aðstoð, Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar á grunni fagurra sáttmála og Evrópusambandinu var hvað eftir annað ýtt á æðra tilverustig að undirlagi pólitískra embættismanna, sem höfðu markmið sameiginlegs ávinnings allra aðila að leiðarljósi.
Ekki eru mörg ár síðan ríki fórnuðu hiklaust ýmsum sérhagsmunum í þágu meiri sameiginlegra hagsmuna. Þannig borguðu Bretland og Þýzkaland gustukafé til fátækra héraða Evrópu. Nú dettur engum í hug að fórna fimmeyringi fyrir hugsjónir, sem hafa flutt mannkynið fram eftir vegi.
Nú tala Bandaríkin aðeins með hótunum og ógnunum við fyrrverandi bandalagsríki í Evrópu. Bandaríkin neita nánast öllu samstarfi við umheiminn, allt frá Kyoto-bókun yfir í stríðsglæpadómstól. Viðkvæðið er alltaf það sama: Samstarfið getur skaðað hagsmuni Bandaríkjanna og heft svigrúm þeirra.
Evrópa er að verða eins. Frakkland og Þýzkaland neita að borga sektir fyrir meiri halla á fjárlögum en myntbandalag Evrópu leyfir og komast upp með það í krafti stærðar sinnar. Spánn og Pólland neita að samþykkja jafnari atkvæðisrétt í Evrópusambandinu, af því að þau hugsa bara um eigin hag.
Frakkland og Þýzkaland ná sér niðri á Spáni og Póllandi með því að frysta greiðslur til þróunar fátækra svæða í Evrópu. Smáseiði á borð við Tékkland og Ungverjaland segjast í skelfingu sinni enga aðild eiga að græðgi Spánar og Póllands og bjóða fram aðild sína að fransk-þýzkri innherjaklíku.
Þegar bandaríki og ríkjasamtök tapa áttum vegna taumlausrar græðgi einstakra ríkja, er skiljanlegt, að íslenzk fyrirtæki ráði skattleysisfræðinga og forsætisráðherra láti klæðskerasauma fyrir sig lög um himinháan starfslokasamning. Það er tíðarandinn. Þetta taumlausa ég.
Jónas Kristjánsson
DV