***
Gott og ljótt
Fiskurinn var góður, ferskur og hæfilega lítið eldaður, jafnt pönnusteikt stórlúða sem hvítlauksristaður hlýri. Estragon-krydd hæfði stórlúðunni vel, sem og hvítlaukur hlýranum. Pönnusteiktur saltfiskur var vel útvatnaður og milt eldaður, borinn fram með lauk- og ólífublönduðu tómatmauki, sem yfirgnæfði ekki á þessum stað.
Hér var borin virðing fyrir hráefni. Í eldamennskunni var því leyft að njóta sín, öfugt við það, sem því miður tíðkast víða á snobbuðum stöðum, þar sem hráefni er eyðilagt með matreiðslubókastælum, sérstaklega þar sem hinn nýi og oftast dapri blandstíll að hætti uppa hefur haldið innreið sína.
Súpur dagsins voru aftur á móti flestar óvenjulega magnaðar af kryddi, kúmenkrydduð sveppasúpa og reyklaxkrydduð seljustönglasúpa. Hrásalat var alltaf frísklegt og girnilegt. Borið var fram tvenns konar og stundum þrenns konar brauð með smjöri og ólífuolíu.
Umgjörðin á Gallerý Fiski á horni Höfðabakka og Strengs er smekklaus og kuldaleg, þrátt fyrir grátt trégólf og ljósar borðplötur úr límviði. Hvítmálaðir veggir og loft, berir gluggar og perur, stálstólar og stálborð framkalla kuldann. Noregsbláar sessur og sófabök, Svíþjóðarbláar setur og stólbök, svo og Íshafsgræn skilrúm við anddyri og salerni garga hvert á annað.
Á verðlagi staðarins má ekki búast við lúxus í innréttingum. En ljósaskermar úr Ikea og gluggatjöld úr Rúmfatalagernum mundu gera gæfumuninn. Varla er meiningin að búa til eins konar fiskbúðarstemmningu, því að þá væru flísar heppilegri, svo sem sjá má í mörgum erlendum fiskréttahúsum. Umhverfið dregur fjögurra stjörnu matreiðslu niður í þrjár stjörnur í heildina.
Í hádeginu er staðurinn vinsæll í tveggja manna viðskiptahjali bindislausra verkstæðisformanna, sem vafalaust liði eins og fiskum á þurru landi, ef staðurinn væri smart. En þeir fá í hádeginu mat, sem er peninganna virði, súpu dagsins og val milli þriggja fiskrétta á 1290 krónur að meðaltali. Á fastaseðli, sem er notaður á kvöldin, kosta fiskréttir að meðaltali 1490 krónur.
Jónas Kristjánsson
DV